Tvennd samanstendur af tveimur hlutum í tiltekinni röð og er tvenndin sem inniheldur hlutina $a$ og $b$ í þessari röð táknuð með $(a, b)$.
Tvær tvenndir $(a, b)$ og $(c, d)$ eru sagðar vera jafnar (þ.e. sama tvenndin) ef $a = c$ og $b = d$ og þá er ritað $(a, b) = (c, d)$. Þegar tvær tvenndir eru bornar saman skiptir því ekki aðeins máli að þær innihaldi sömu hlutina, heldur einnig að hlutirnir hafi sömu röð í hvorri tvennd fyrir sig.
Dæmi: Tvenndirnar $(2, 3)$ og $(6, 7)$ eru ekki jafnar því þær innihalda ólíka hluti.
Dæmi: Tvenndirnar $(1, 2)$ og $(2, 1)$ eru ekki jafnar, því þrátt fyrir að þær innihaldi sömu hlutina eru þeir ekki í sömu röð.
Dæmi: Tvenndirnar $(4, 5)$ og $(4, 5)$ eru jafnar.
Á sama hátt samanstendur þrennd af þremur hlutum í tiltekinni röð og þrenndin sem inniheldur hlutina $a$, $b$ og $c$ í þessari röð er táknuð með $(a, b, c)$.
Tvær þrenndir $(a, b, c)$ og $(d, e, f)$ eru sagðar vera jafnar (þ.e. sama þrenndin) ef $a = d$, $b = e$ og $c = f$ og þá er ritað $(a, b, c) = (d, e, f)$.
Dæmi: Þrenndirnar $(8, 10, 6)$ og $(14, 11, 17)$ eru ekki jafar því þær innihalda ólíka hluti.
Dæmi: Þrenndirnar $(1, 2, 3)$ og $(2, 1, 3)$ eru ekki jafnar, því þrátt fyrir að þær innihaldi sömu hlutina eru þeir ekki í sömu röð.
Dæmi: Þrenndirnar $(4, 7, 12)$ og $(4, 7, 12)$ eru jafnar.
Almennar samanstendur $n$-und, þar sem $n$ er náttúruleg tala, af $n$ hlutum í tiltekinni röð og $n$-undin sem inniheldur hlutina $a_1, a_2, \ldots, a_n$ í þessari röð er táknuð með $(a_1, a_2, \ldots, a_n)$.
Tvær $n$-undir $(a_1, a_2, \ldots, a_n)$ og $(b_1, b_2, \ldots, b_n)$ eru sagðar vera jafnar (þ.e. sama $n$-undin) ef $a_i = b_i$ fyrir öll $1 \leq i \leq n$ og þá er ritað $(a_1, a_2, \ldots, a_n) = (b_1, b_2, \ldots, b_n)$.