Skip to Content

Leiðbeind þjálfun tauganeta - Afturflæðisreikniritið - Fundur fyrir alla félagsmenn

Tími: 
Fimmtudaginn, 15. september 2016 - 16:45
Staðsetning: 
Í stofu V-155 í VR-II (Háskóli Íslands) við Hjarðarhaga

Fundur verður haldinn í félaginu fimmtudaginn 15. september í stofu VR-155 í VR-II við Hjarðarhaga. Að venju hefst fundurinn með kaffidrykkju kl 16:45, en kl 17:15 heldur dr. Jón Guðnason lektor við tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík fyrirlestur sem hann gefur yfirskriftina: Leiðbeind þjálfun tauganeta - Afturflæðisreikniritið

Efni fyrirlestrarins lýsir Jón svo:

Á undanförnum árum hafa tauganet aftur haslað sér völl sem vinsælasta og árangursmesta aðferðin við að útfæra vitvélar. Skýringar á endurkomu tauganetana eru margvíslegar en gagnagnótt og reikniafl eru meðal þeirra helstu. Í fyrirlestrinum verður farið yfir hvernig framvirk tauganet virka og hvernig þau eru þjálfuð með leiðbeindum aðferðum. Sýnt er hvernig aðferð mesta bratta (e. gradient decent) er sett upp fyrir framvirk tauganet og hvernig afturflæði (e. backpropagation) er notað til þess að reikna stigul villufallsins sem verið er að lágmarka. Aðferðin varð vinsæl eftir að Rumelhart et. al. (1986) skýrðu hana út en útleiðslan sem farið er yfir í fyrirlestrinum má finna í Bishop (2001).

Jón Guðanson er lektor við Tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík og kennir meðal annars námskeiðið Gagnanám og vitvélar þar sem tauganet koma við sögu. Rannsóknir Jóns eru á sviði raddgreiningar þar sem merkjafræðiaðferðum og vitvélum er beitt á raddmerki til þess að fá fram upplýsingar eins og hvað sé verið að segja og hver sé að tala.
Rumelhart, David E., Georey E. Hinton, and Ronald J. Williams. "Learning
internal representation by back propagation." Parallel distributed processing:
exploration in the microstructure of cognition 1 (1986).
Bishop, C. M. "Bishop Pattern Recognition and Machine Learning." (2001).

Við hvetjum félagsmenn til að mæta og hlýða á þetta spennandi erindi!