Skip to Content

Um mikilvægi hnúta í netum

Tími: 
Miðvikudaginn, 22. nóvember 2023 - 17:00
Staðsetning: 
VR-2, stofu 157 í HÍ

Miðvikudaginn 22. nóvember flutti María Óskarsdóttir erindi um mikilvægi hnúta í netum. Eins og venja er var heitt á könnunni frá 16.30.

Um mikilvægi hnúta í netum

Hægt er að tákna ýmis fyrirbæri bæði í raunheimum og hinum stafræna heimi með netum, það er að segja, einingum (hnútum) sem tengjast á einhvern hátt (með leggjum). Til dæmis má nefna tengslanet, tölvunet og fjármálanet, en net finnast einning í líffræði, verkfræði og á fleiri fræðasviðum. Eitt meginverkefni í greiningu slíkra neta er að finna hvaða hnútar eru mikilvægir. Hægt er að skilgreina og mæla mikilvægi á mismunandi vegu, og finna þannig hnúta sem eru tengdir mörgum öðrum hnútum, eða eru staðsettir þannig að þeir stjórna upplýsingaflæði, eða jafnvel flæði slúðurs og sýkinga. PageRank reikniritið hefur verið notað til að mæla mikilvægi hnúta, en það var þróað til að raða vefsíðum í leitarvélum. Hægt er að sérsníða röðunina þannig að hnútar sem eru mikilvægir miðað við (eða nálægt) fyrirfram skilgreindu mengi hnúta verði áhrifameiri.. Þessi nálgun hefur verið notuð til að bera kennsl á ákveðna hegðun í netum þar sem félagsleg áhrif eru sterk, til dæmis fjármálassvik og brotthvarf.

Í þessum fyrirlestri var fjallað um aðferðir sem mæla mikilvægi hnúta í netum og hvernig finna má áhrifamikla hnúta. Sérstök athygli var lögð á PageRank reikniritið og hvernig má útvíkka það að mismunandi tegundum neta, meðal annars tvíhlutanetum og fjöllaga netum.

Sýnt var hvernig nýta má reikniritið við lánshæfismat og til að finna sviksamar vátryggingakröfur.