Um vefkerfið
Hér er stutt lýsing á vefkerfinu sem heldur utan um hugtakasafnið. Allur hugbúnaður sem var notaður er opinn hugbúnaður. Lýsingunni er skipt í þrjá hluta. Fyrst er fjallað um almennan hluta vefkerfisins, þá þann hluta sem lýtur að birtingu stærðfræði, og að lokum þann hluta sem lýtur að birtingu myndefnis.
Almennur hluti vefkerfisins
Vefurinn er keyrður á hefðbundinni LAMP uppsetningu með vefumsýslukerfinu Drupal. Þemað sem er notað er Zero Point og helstu viðbætur við Drupal sem voru notaðar eru: BeautyTips, CCK, JQuery menu, PHP Markdown Extra, Pathauto, Typogrify og Views. Auk þess var töluvert skrifað af kóða til að sjá um hluti sem þurftu sértækar lausnir.
Stærðfræðihluti vefkerfisins
Stærðfræðivinnsla á vefnum fer fram í vafra notandans. Hún er í höndum MathJax sem er JavaScript forrit. Vefkerfið sendir út HTML skjöl sem innihalda stærðfræði á TeX formi. Það fer svo eftir gerð og uppsetningu vafra notandans hvað MathJax gerir. Ef vafrinn hefur stuðning við MathML, sem er táknsetningarstaðall fyrir stærðfræði á vefnum, þá þýðir MathJax LaTeX skipanirnar yfir á það form. Ef hinsvegar vafrinn skilur ekki slíkt, þá útbýr MathJax flókinn HTML kóða sem samanstendur af einstökum táknum og upplýsingum um hvernig eigi að raða þeim upp. Seinni aðferðin er miklum mun hægvirkari, en hefur þann kost að virka í öllum vöfrum.
Myndefni á vefnum
Allar myndir í hugtakasafninu eru á SVG formi. Þá er myndin geymd sem upplýsingar um hvað var teiknað, í staðinn fyrir upplýsingar um mislita punkta. Kosturinn við þær er fyrst og fremst sá að þær er hægt að skala án þess að gæði þeirra breytist. Þar sem sumir vafrar geta ekki birt SVG myndir nema með viðbótum, þá sendir vefkerfið slíkum vöfrum PNG myndir í staðinn.
Hreyfimyndir í hugtakasafninu eru flestar unnar í GeoGebru og eru birtar á vefnum sem Java Applet. Ákjósanlegra hefði verið að geta birt þær sem t.d. JavaScript forrit, en því miður er ekki enn til nógu þróaður hugbúnaður fyrir slíka lausn.